GDRN

GDRN

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir er 26 ára Mosfellingur sem hefur þrátt fyrir ungan aldur látið mikið að sér kveða í tónlistarheiminum á Íslandi undanfarin ár. Hún skaust fram á sjónarsviðið fyrir rúmum tveimur árum með útgáfu lagsins „Lætur mig“. Síðan þá hefur Guðrún verið atkvæðamikil í íslensku tónlistarlífi og meðal annars gefið út tvær plötur, spilað á öllum helstu tónlistarhátíðum Íslands ásamt því að vinna til fernra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum 2018. Guðrún er betur þekkt undir listamannsnafninu GDRN.

Guðrún Ýr hefur á sínum stutta ferli stimplað sig rækilega inn sem ein af bestu listamönnum Íslands. Hún hóf fyrst að semja sína eigin tónlist með rafdúóinu Ra:tio árið 2016 og kom úr því samstarfi hennar fyrsta breiðskífa “Hvað ef” sem hlaut m.a. fern verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2018 og hefur henni nú verið streymt tæplega fimm milljón sinnum á streymisveitunni Spotify. Á sviði popptónlistar hefur Guðrún sýnt fram á mikla hæfileika og sérstöðu, hún hikar ekki við að fara sínar eigin leiðir. Textar Guðrúnar hafa einnig vakið mikla athygli, en þeir eru tilfinninganæmir, ljóðrænir og mjög hreinskilnir. 

Hennar nýjasta plata “GDRN” kom út árið 2020, á þeiri plötu breytti Guðrún um stefnu þar sem hún færir sig frá rafræni yfirbragði plötunnar “Hvað ef” yfir í lífrænni hljóm sem einkennist af sterkum áhrifum frá poppi, jassi og doskói. Við gerð plötunnar ákvað Guðrún að fylgja hjartanu og úr kom nýja plöta með meiri jazz áhrifum og áherslu á lifandi flutning sem var heldur ólíkur fyrri plötu hennar. Hana langaði til að gera fleiri tilraunir með texta og ákvað því að setja texta og hugmyndir í ljóðrænni búning og mikið af tilfinningum og sögupersónum eru settar í búning náttúrunnar á nýjustu plötu hennar. Skoðanir á plötunni GDRN voru jákvæðar og vakti platan athygli hlustenda og gagnrýnenda. Nýr hlustendahópur myndaðist, því platan fór heldur aðra leið en fyrri platan. 

Inniheldur platan mikið af hennar þekktustu lögum eins og “Af og til”, “Vorið” og “Áður en dagur rís” sem enduðu öll á árslista Rásar tvö fyrir árið 2020. Þar sem að COVID-19 faraldurinn setti strik í reikninginn náði Guðrún ekki að halda útgáfutónleikana fyrir “GDRN” plötuna fyrr en rúmu einu og hálfu ári eftir að platan kom út. En þann 24. september lék hún fyrir fullum sal í Háskólabíó á útgáfutónleikum sínum sem hún hélt í samstarfi við Paxal. 

Þrátt fyrir óhefðbundna tíma síðustu misseri hefur Guðrún Ýr ekki setið auðum höndum og hefur hún flutt verk sín í sjónvarpi eins og í Vikunni með Gísla Marteini, hitað upp fyrir aðra listamenn eins og Ásgeir Trausta og komið fram á ótal streymistónleikum og viðburðum eins og Heima með Helga, á 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur o.fl. Guðrún er einnig einn af stofnendum og stjórnarmeðlimum FSST (Félag Sjálfstætt Starfandi Tónlistarfólks) sem heldur vörð um réttindi, gæta hagsmuna og efla samstöðu tónlistarfólks í Íslenskum tónlistariðnaði. 

Guðrún hefur aldrei verið hrædd við að taka að sér krefjandi verkefni og þegar að heimsfaraldur herjaði á sá hún tækifæri til þess að vaxa á öðrum sviðum listanna. Þá þreytti Guðrún frumraun sína á sviði leiklistar og lék hún aðalhlutverkið í Netflix þáttaröðinni “Katla” undir leikstjórn Baltasar Kormáks. EInnig var hún partur af listasýningu Söru Björk Hauksdóttur sem sýnd var í Listasafni Mosfellsbæjar og samdi hún ljóð sem birtust á bolum UN-Women til styrkjar verkefna þeirra í Líbanon. En það er einmitt það sem einkennir Guðrúnu, hún fer sínar eigin leiðir og er óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir og prófa sig áfram með ný verkefni sem bæði tengjast tónlistinni og ekki.

Fyrirspurnir um bókanir hjá GDRN sendist á mani [hjá] paxal.